„Norðurál er traust og áreiðanlegt fyrirtæki. Við framleiðum ál á ábyrgan, öruggan og arðbæran hátt í sátt við umhverfi og samfélag.“

Samfélag, umhverfi og starfsfólk
Samfélagsskýrsla Norðuráls 2021
Við berum víðtæka ábyrgð
Norðurál er eitt stærsta iðnfyrirtæki landsins, einn stærsti vinnustaðurinn og einn af stærstu kaupendum íslenskrar raforku. Við berum því víðtæka ábyrgð, sem við tökum alvarlega. Kjarninn í samfélagsábyrgð okkar miðar að því að skapa efnahagsleg verðmæti á sjálfbæran og ábyrgan hátt til framtíðar og haga starfsemi okkar þannig að við hámörkum jákvæð áhrif á samfélagið. Þetta endurspeglast í yfirlýsingu okkar um samfélagsmál:
Norðurál er traust og áreiðanlegt fyrirtæki. Við framleiðum ál á ábyrgan, öruggan og arðbæran hátt í sátt við umhverfi og samfélag.
Heimurinn hefur tekið stakkaskiptum á síðustu árum. Fólki og fyrirtækjum er umhugað um loftslagsmál. Almenningur gerir þá kröfu til fyrirtækja og stofnana að þau grípi til aðgerða til að lækka kolefnisspor sitt. Þessi nýi veruleiki felur í sér áskoranir en einnig gríðarleg tækifæri fyrir Norðurál.
Stærsti einstaki þátturinn í kolefnisspori álframleiðslu á heimsvísu er raforkan. Á Íslandi er orkan endurnýjanleg og þegar það helst í hendur við stöðugan rekstur og öruggan tækjabúnað getum við framleitt ál sem er það grænasta í heimi.
Í okkar rekstri hefur góður árangur náðst við að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda, minnka sóun og bæta nýtingu hráefna. Árangurinn hefði ekki náðst án okkar frábæra starfsfólks og stöðugleika í rekstri. Skýr umhverfisvitund og ábyrgð gegna lykilhlutverki á öllum stigum framleiðslunnar, allt frá aðföngum í fjarlægum löndum að hámarksnýtingu og endurvinnslu allra hráefna.
En verkinu er hvergi nærri lokið. Við stefnum á kolefnishlutleysi í okkar rekstri og tökum virkan þátt í þróunar- og nýsköpunarverkefnum þar sem leiða er leitað til að fanga og binda eða nýta það CO₂ sem losnar við álframleiðslu Norðuráls.
Þá losun sem verður utan framleiðslunnar ætlum við að draga saman um að minnsta kosti 40% fyrir árið 2030, miðað við árið 2015. Á sama tíma ætlum við að draga saman urðun á blönduðum úrgangi um minnst 40%. Nú þegar hefur góður árangur náðst. Losun gróðurhúsalofttegunda sem áætlunin nær til hefur dregist saman um 27% og úrgangsmagn um 8%. Þessi árangur er starfsmönnum Norðuráls hvatning til að halda áfram ötulu starfi við að draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar.
Við höfum sett okkur háleit markmið sem kalla á stöðuga vinnu, því verkinu er í raun aldrei lokið. Það er alltaf hægt að finna leiðir til að gera betur, hvort sem er í umhverfis-, öryggis- eða gæðamálum. En þessi vinna, þessi þörf fyrir að gera betur og bæta sig, er líka markmið í sjálfu sér, því sá sem ekki er á stöðugri hreyfingu fram á við, dregst aftur úr.
Gunnar Guðlaugsson

Umhverfi
Norðurál hefur náð góðum árangri við að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda, minnka sóun og bæta nýtingu hráefna. Við losum stöðugt minna af gróðurhúsalofttegundum, aukum hlut endurvinnslu ár frá ári og bætum aðferðir okkar stöðugt. Þess vegna köllum við álið okkar umhverfisvænasta ál í heimi. Norðurál leggur áherslu á að starfsemi fyrirtækisins sé í sátt við umhverfið. Stöðugt er unnið að lágmörkun umhverfisáhrifa og ábyrgri nýtingu orku og hráefna. Norðurál stuðlar að aukinni umhverfisvitund og þátttöku starfsfólks í umbótum. Norðurál uppfyllir kröfur sem settar eru fram í starfsleyfi, lögum og reglum um umhverfismál.
Kolefnishlutleysi 2040
Norðurál framleiðir ál með einu lægsta kolefnisspori í heimi. Þegar litið er á ferlið í heild, frá vinnslu hráefna til afhendingar fullunninnar vöru, nemur kolefnisspor áls frá Norðuráli einungis um fjórðungi af heimsmeðaltalinu. Við stefnum að því að verða fyrsta álver í heiminum sem framleiðir kolefnishlutlaust ál.
Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum
Norðurál hefur sett metnaðarfull markmið að takmarka umhverfisáhrif sín þegar kemur að álframleiðslunni sjálfri, en ekki síður um að lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda sem ekki fellur undir viðskiptakerfi ESB. Aðgerðaáætlun Norðuráls í loftslagsmálum felur í sér 10 aðgerðir sem taka á stærstu losunarþáttum í þeim hluta starfseminnar sem fellur ekki undir viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir eða sjálfa álframleiðsluna.

Umhverfisvöktun
Nánasta umhverfi okkar í Hvalfirði er eitt mest rannsakaða svæði á íslandi. Óháðir aðilar hafa eftirlit með um 100 mæliþáttum til að ganga úr skugga um að starfsemi fyrirtækja á Grundartanga hafi ekki neikvæð áhrif á umhverfið. Umhverfisvöktun er framkvæmd af óháðum aðilum, sem vakta loftgæði, ferskvatn, sjó við flæðigryfjur, lífríki sjávar, móareitir, gróður og grasbíta. Á árinu 2021 voru tekin um 813 sýni tekin á um 143 sýnatökustöðum.

Efnhagur
Norðurál skilar verðmætum til samfélagsins með ýmsum hætti. Skattspor félagsins árið 2021 nam 5,9 milljörðum króna. Með öflun gjaldeyristekna, innkaupum á innlendri vöru og þjónustu, greiðslu skatta og opinbera gjalda, sköpun fjölmargra vel launaðra starfa og almennum og víðtækum stuðningi við samfélagið á Vesturlandi hefur Norðurál mikil og jákvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf.
Lykiltölur
Framleiðsla Norðuráls árið 2021 var 315.182 tonn, sem er um 2.500 tonna aukning frá fyrra ári. Um 60.000 tonn af framleiðslu félagsins eru í formi virðisaukandi framleiðslu eða álmelmi. Með aukinni straumnýtni hefur Norðurál aukið ársframleiðslu úr 270 þúsund tonnum af áli árið 2010 í 315 þúsund tonn árið 2021. Hagnaður ársins 2021 nam 10.088 milljónum króna.

Græn fjármögnun
Verkefnið gerir Norðuráli kleift að framleiða verðmætari vörur hér á landi með minni orkunotkun og minna kolefnisspori. Ný framleiðslulína gerir Norðuráli kleift að vinna fleiri og verðmætari vörur úr því áli sem unnið er í álveri fyrirtækisins, sem sparar um 40% af orku í steypuferlinu. Um er að ræða fjárfestingaverkefni sem hleypur á um 120 milljónum dala, eða tæpum 16 milljörðum króna.

Stjórnarhættir
Norðurál er eitt stærsta iðnfyrirtæki landsins, einn stærsti vinnustaðurinn og einn af stærstu kaupendum íslenskrar raforku. Kjarninn í samfélagsábyrgð okkar miðar að því að skapa verðmæti á sjálfbæran og ábyrgan hátt til framtíðar, með jákvæðum áhrifum á samfélagið.
Fyrsti langtímasamningur í heimi á grænu áli
Natur-Al™ er afrakstur vandvirkni og ábyrgra viðskiptahátta á öllum stigum, og okkar hreinasta afurð til þessa. Samningurinn við Hammerer Aluminium Industries er ekki einungis okkar fyrsti langtímasamningur um sölu á grænu áli heldur sá fyrsti á heimsvísu. Ál undir merkjum Natur-Al™ hefur kolefnisspor sem jafngildir 4 tonnum af koldíoxíði á hvert tonn af áli, allt frá öflun báxíts og vinnslu áloxíðs til álvinnslu og flutnings alla leið til kaupanda. Heildarlosun kolefnisígilda við framleiðslu Natur-Al™ er innan við fjórðungur af meðallosun álframleiðslu í heiminum. Þessi árangur byggir á stöðugleika í rekstri og ströngum viðmiðum um umhverfismál ásamt nýtingu orku úr 100% endurnýjanlegum orkugjöfum.

Nýr raforkusamningur við Landsvirkjun
Landsvirkjun hefur verið traustur og áreiðanlegur samstarfsaðili Norðuráls frá upphafi. Landsvirkjun og Norðurál undirrituðu nýjan raforkusamning í júlí sem felur í sér þriggja ára framlengingu á fyrri samningi og stuðning við fjölbreyttari framleiðslu og framtíðarvöxt. Samkomulag um aukna afhendingu á orku styður við áætlanir Norðuráls um að fjárfesta í nýjum steypuskála, þar sem fyrirhugað er að framleiða virðisaukandi sérvöru sem styrkir samkeppnisstöðu fyrirtækisins.

Alþjóðleg ASI vottun
Norðurál hlaut í janúar 2020 alþjóðlegu ASI vottun um umhverfisvæna og ábyrga framleiðslu, fyrst þeirra álfyrirtækja sem starfa á Íslandi. Vottunin staðfestir að starfsemi og viðskiptahættir fyrirtækisins eru samfélagslega ábyrg og framúrskarandi á sviði umhverfisvænnar framleiðslu.
Samfélag
Við erum stolt af efnahagslegu mikilvægi Norðuráls og okkar þætti í nýtingu einnar mikilvægustu auðlindar Íslands, sem er hrein og umhverfisvæn orka úr fallvötnum og jarðvarma. En við erum ekki síður meðvituð um samfélagslegt mikilvægi fyrirtækisins sem langstærsta vinnustaðarins á stóru landsvæði. Við viljum skapa góðan og öruggan vinnustað fyrir allt okkar fólk og taka virkan þátt í margvíslegum samfélagslega mikilvægum verkefnum.
Jafnréttismarkmið
Jafnréttismarkmið eru höfð að leiðarljósi við allar ráðningar, þar sem við hverja ráðningu er litið til þess að ráða til starfsins það kyn sem hallar á. Þannig eru tækifæri til að ráða fleiri konur í störf framleiðslustarfsfólks, iðnaðarmanna og í hóp verk- og tæknifræðinga. Norðurál hlaut viðurkenningu Jafnvægisvogar Félags kvenna í atvinnulífinu árið 2021, er með vottað jafnlaunakerfi í samræmi við jafnlaunastaðalinn ÍST 85:2012, og hefur einnig hlotið gullmerki jafnlaunaúttektar PWC þrjú ár í röð eða frá upphafi jafnlaunaúttektar.
Fjölskylduvænni vinnustaður
Við tókum upp nýtt vaktakerfi á framleiðslusvæði og fórum úr 12 tíma vöktum í 8 tíma. Styttri vaktir, lengri vaktafrí og minni vinnuskylda er liður í því að gera vinnustaðinn fjölskylduvænni og auka jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Á sama tíma fækkaði vinnustundum dagvinnufólks um eina og hálfa klukkustund á viku.

Samfélagsverkefni
Norðurál styrkir ýmis samfélagsverkefni og nam upphæðin til þessara verkefna á þriðja tug milljóna árið 2021. Félagið er stoltur styrktaraðili knattspyrnufélagsins ÍA á Akranesi og knattspyrnufélagsins Vals á höfuðborgarsvæðinu, með áherslu á stuðning við starfið í yngri flokkum.

Heimsmarkmiðin
Norðurál vinnur markvisst að fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna: