Efnahagur
Hagnaður á árinu og verðmæti til samfélagsins
Framleiðsla Norðuráls árið 2021 var 315.182 tonn, sem er um 2.500 tonna aukning frá fyrra ári. Um 60.000 tonn af framleiðslu félagsins eru í formi virðisaukandi framleiðslu eða álmelmi. Með aukinni straumnýtni hefur Norðurál aukið ársframleiðslu úr 270 þúsund tonnum af áli árið 2010 í 315 þúsund tonn árið 2021. Hagnaður ársins 2021 nam 10.088 milljónum króna.
Markaðsaðstæður tóku miklum stakkaskiptum til batnaðar á árinu 2021. Söluverð áls á markaði var lágt árið 2020 og fór lægst í 1.457 USD/tonn í apríl 2020 en hækkaði þegar leið á árið og var að meðaltali 1.702 USD árið 2020. Hækkun hélt áfram á árinu 2021 og var álverð að meðaltali 2.480 USD/tonn árið 2021.
Útflutningsverðmæti Norðuráls námu 100,5 milljörðum króna (791 M USD) árið 2021. Af þeim tekjum námu greiðslur til íslenskra aðila 44,4 milljörðum króna í formi opinberra gjalda, launa og innkaupa frá innlendum birgjum og þjónustuaðilum. Launagreiðslur ásamt launatengdum gjöldum námu 7,4 milljörðum króna og meðallaun starfsfólks voru 9,7 milljónir króna á ári.
Norðurál skilar verðmætum til samfélagsins með ýmsum hætti. Skattspor félagsins árið 2021 nam 5,9 milljörðum króna. Með öflun gjaldeyristekna, innkaupum á innlendri vöru og þjónustu, greiðslu skatta og opinbera gjalda, sköpun fjölmargra vel launaðra starfa og almennum og víðtækum stuðningi við samfélagið á Vesturlandi hefur Norðurál mikil og jákvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf.
Árið 1997 var undirritaður fjárfestingarsamningur milli ríkisstjórnar Íslands og Norðuráls með gildistíma til 31. október 2018. Árið 2016 virkjaði Norðurál heimild í samingnum um endurskoðun skattafyrirkomulags á þá leið að frá árinu 2017 laut félagið almennum íslenskum skattalögum og gaf þannig eftir fyrri skattaívilnanir.
Fjárfestingarsamningurinn er aðgengilegur á vef Atvinnuvegaráðuneytisins.
Skattspor Norðuráls
Efnahagsleg verðmæti af starfsemi Norðuráls námu rúmum 106 milljörðum króna árið 2021 og samanstanda af sölutekjum, fjármagnstekjum og söluhagnaði eigna. Þar af var 44 milljörðum króna ráðstafað til íslenskra aðila með margvíslegum hætti, svo sem launagreiðslum til starfsfólks, launatengdum gjöldum, kaupum á rafmagni, kaupum á aðföngum og þjónustu, og greiðslu skatta og annarra opinberra gjalda.
Skattspor Norðuráls tekur til allra skatta og gjalda sem félagið greiðir eða innheimtir á Íslandi ásamt mótframlagi í lífeyrissjóði starfsfólks. Innheimtir skattar teljast ekki gjöld hjá félaginu en eiga uppruna í starfsemi þess og hafa áhrif vegna þeirrar umsýslu sem þeim tilheyrir. Efnahagslegt framlag (verðmæti) rekstrar félagsins árið 2021 nam 106,2 milljörðum króna og samanstendur af sölutekjum, fjármagnstekjum og söluhagnaði eigna.
ETS kerfið
Sú losun gróðurhúsalofttegunda sem er beintengd framleiðsluferli Norðuráls fellur undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir (ETS). Markmið þess er að draga úr losun frá framleiðslu stærri iðnfyrirtækja í Evrópu þar sem fyrirtækin þurfa að kaupa losunarheimildir. Viðskiptakerfið virkar því sem hagrænn hvati fyrir iðnfyrirtæki til að draga úr losun. Árið 2021 keypti Norðurál 95.321 tonn af heimildum og greiddi fyrir þær 693 milljónir króna.
Græn fjármögnun nýrrar framleiðslulínu
Í nóvember var skrifað undir samning við Arion banka um græna fjármögnun á nýrri framleiðslulínu í steypuskála Norðuráls á Grundartanga. Um er að ræða fjárfestingaverkefni sem hleypur á um 120 milljónum dala, eða tæpum 16 milljörðum króna.
Verkefnið gerir Norðuráli kleift að framleiða verðmætari vörur hér á landi með minni orkunotkun og minna kolefnisspori. Umtalsverð orka sparast í steypuferlinu eða um 40%. Arion banki gaf nýverið út sína fyrstu grænu fjármálaumgjörð sem tekur til fjármögnunar bankans og lánveitinga. Umgjörðin fjallar m.a. um þau skilyrði sem lánveitingar bankans þurfa að uppfylla til að teljast grænar. Umgjörðin er byggð á viðmiðum Alþjóðasamtaka aðila á verðbréfamarkaði, ICMA, og horfir til flokkunarkerfis Evrópusambandsins og heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Norska matsfyrirtækið Cicero veitti álit á umgjörðinni.
Heiðarleg viðskipti
Móðurfélag Norðuráls, Century Aluminum Company, og dótturfélög þess hafa einsett sér að ástunda gott siðferði og fara að lögum í viðskiptum um allan heim. Bandarísk og alþjóðleg lög og reglur banna spillta viðskiptahætti, s.s. óeðlilega fyrirgreiðslu og rangfærslur í bókhaldi og öðrum gögnum.
Tilgangurinn með stefnunni er að setja upp staðla og verklag sem starfsmönnum er skylt að hlíta til að tryggja að farið sé að lögum og tryggja gott orðspor fyrirtækis sem stundar heiðarleg viðskipti.
Siðareglur
Century Aluminum Company, móðurfélag Norðuráls, og öll tengd félög skuldbinda sig til þess að hlíta ströngustu kröfum um heiðarleika, siðferði og ráðvendni í viðskiptum. Stjórnendur skrifa undir siðareglur þar sem settar eru fram skýrar leiðbeiningar til þess að sporna við óheiðarleika og siðleysi í háttsemi og stuðla að því að öll starfsemi félagsins standist þessar kröfur.
Starfsmenn mega ekki leyfa, bjóða, lofa né veita greiðslur í reiðufé eða öðrum verðmætum, beint eða gegnum þriðja aðila, til opinbers embættismanns eða starfsmanns fyrirtækis í einkageiranum, né til maka, sambýlisaðila, barns eða annars skyldmennis neinna slíkra aðila í þeim tilgangi að hafa áhrif á eða umbuna fyrir gjörðir eða ákvarðanatöku slíkra aðila eða til að öðlast óviðeigandi ávinning. Á sama hátt mega starfsmenn og nánasta fjölskylda þeirra ekki krefjast, samþykkja né taka við peningagreiðslum eða öðrum verðmætum beint eða gegnum þriðja aðila umfram almennar viðskiptavenjur.