Umhverfismál

 

Norðurál hefur náð góðum árangri við að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda, minnka sóun og bæta nýtingu hráefna. Við losum stöðugt minna af gróðurhúsalofttegundum, aukum hlut endurvinnslu ár frá ári og bætum aðferðir okkar stöðugt. Þess vegna köllum við álið okkar umhverfisvænasta ál í heimi.

 

Norðurál leggur áherslu á að starfsemi fyrirtækisins sé í sátt við umhverfið. Stöðugt er unnið að lágmörkun umhverfisáhrifa og ábyrgri nýtingu orku og hráefna. Norðurál stuðlar að aukinni umhverfisvitund og þátttöku starfsfólks í umbótum. Norðurál uppfyllir kröfur sem settar eru fram í starfsleyfi, lögum og reglum um umhverfismál.

 

Umhverfismarkmið

 

  • Lágmörkun losunar
  • Starfsfólk þekki umhverfisáhrif starfseminnar
  • Ábyrg endurnýting og förgun

 

Kolefnishlutleysi

 

Norðurál framleiðir ál með einu lægsta kolefnisspori í heimi. Þegar litið er á ferlið í heild, frá vinnslu hráefna til afhendingar fullunninnar vöru, nemur kolefnisspor áls frá Norðuráli einungis um fjórðungi af heimsmeðaltalinu. Við stefnum að því að verða fyrsta álver í heiminum sem framleiðir kolefnishlutlaust ál.

 

Stærsta uppspretta gróðurhúsalofttegunda frá álverum er CO₂ sem losnar við bruna á kolefnisskautum við rafgreiningu á áli. Með bestu fáanlegri tækni er ekki til önnur aðferð til að framleiða ál. Þess vegna er einkum horft til tveggja leiða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá álverum:

 

1. Að þróa nýja tegund skauta þar sem kolefni binst ekki súrefni. Það hefði í för með sér að losun CO₂ yrði hverfandi.

 

2. Að fanga CO₂ úr útblæstri kerskála og háfa. Stærsta áskorunin er sú að styrkur CO₂ per rúmmál í útblæstri er lítill, eða álíka mikill og í andrúmsloftinu.

 

Norðurál tekur þátt í þróunar- og nýsköpunarverkefnum sem miða að því að gera álframleiðslu okkar að fullu kolefnishlutlausa. Meðal verkefna sem verða unnin á Íslandi þar sem hugvit og þekking sérfræðinga Norðuráls leikur lykilhlutverk:

 

  • Norðurál og norska fyrirtækið Ocean Geoloop munu starfa saman að því að þróa lausn um að fanga CO₂ sem losnar við framleiðsluna. Tæknin styðst við vatnsaflsvél sem nýtir CO₂ frá álverinu til raforkuframleiðslu, sem skilar sér síðan í sjálfvirkri kolefnistökulausn fyrir Norðurál.
  • Norðurál og Qair Group, sem er framleiðandi endurnýjanlegrar raforku, stefna á þróun lausna til að fanga og binda koldíoxíð sem losnar við álframleiðsluna. Áætlanir Qair miða að því að nýta CO₂ til framleiðslu á rafeldsneyti (e-fuel) í fyrirhugaðri vetnisverksmiðju Qair á Grundartanga.
  • Norðurál styður við nemendur í HR vegna verkefna sem miða að kolefnishlutleysi. Stuðningurinn hefur verið í tengslum við umsóknir um styrki og aðgengi að gögnum og sérfræðingum.
  • Nýverið fékk Guðrún Arnbjörg Sævarsdóttir, prófessor við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, styrk úr Rannsóknarsjóði fyrir doktorsnema og mun helga sig því verkefni að gera styrk koldíoxíðs í úblæstri Norðuráls hærri svo hægt sé að nota lausnir eins og til dæmis Carbfix.
  • Norðurál er eitt þeirra fyrirtækja, sem ásamt stjórnvöldum og OR, er aðili að viljayfir­lýsingu un að kanna hvort CarbFix geti orðið raunhæfur kostur til þess að draga úr losun CO₂ frá stóriðju. Sem stærsti viðskiptavinur OR höfum við frá upphafi komið að CarbFix verkefninu.
  • Norðurál hefur aðstoðað Arctus Metal sem vinnur að því að þróa kolefnislaus rafskaut.

 

Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum

 

Umhverfisáhrif af starfsemi Norðuráls eru tvíþætt. Annars vegar eru það umhverfisáhrif sem fylgja álframleiðslunni sjálfri, sem falla undir viðskiptakerfi ESB og hins vegar þau almennu umhverfisáhrif sem fylgja rekstri stórs fyrirtækis. Við erum því í raun með tvenns konar umhverfisbókhald: eitt sem heldur utan um framleiðsluhlutann og annað sem heldur utan um losun sem verður til við annan rekstur fyrirtækisins.

 

Við höfum sett okkur metnaðarfull markmið þegar kemur að álframleiðslunni sjálfri, en ekki síður um að lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda sem ekki fellur undir viðskiptakerfi ESB. Þetta er í samræmi við skuldbindingar Íslands gagnvart Parísarsamningnum, sem kveða á um að árið 2030 skuli losun hafa dregist saman um a.m.k. 40% miðað við árið 2015. Jafnframt skuli urðun á blönduðum úrgangi hafa dregist saman um minnst 40% fyrir árið 2030 miðað við árið 2015. Nú þegar hefur góður árangur náðst. Losun gróðurhúsalofttegunda sem áætlunin nær til hefur dregist saman um 27% og úrgangsmagn um 8%.

Olíunotkun véla og tækja er stærsti hlutinn af heildinni og þar hefur þegar náðst 12% samdráttur.

 

Aðgerðaáætlun okkar í loftslagsmálum felur í sér 10 aðgerðir sem taka á stærstu losunar­þáttum í þeim hluta starfseminnar sem fellur ekki undir viðskiptakerfi ESB um losunar­heimildir eða sjálfa álframleiðsluna.

Nánari grein er gerð fyrir aðgerðaáætlun okkar í loftslagsmálum hér.

 

Umhverfisvöktun

 

Nánasta umhverfi Norðuráls, Grundartangi og Hvalfjörður, er eitt mest rannsakaða svæði á Íslandi. Óháðir aðilar hafa eftirlit með um 100 mæliþáttum í lofti, sjó og ferskvatni, húsdýrum og gróðri til að ganga úr skugga um að starfsemi fyrirtækja á Grundartanga hafi ekki neikvæð áhrif á umhverfið. Umhverfisvöktun iðnaðarsvæðisins á Grundartanga fer fram samkvæmt umhverfisvöktunaráætlun sem gerð er skv. starfsleyfum og samþykkt er af Umhverfis­stofnun. Þau fyrirtæki sem taka þátt í umhverfisvöktuninni eru Elkem Ísland, Norðurál Grundartanga og Alur Álvinnsla.

 

Nýjustu útgáfu skýrslu um Umhverfisvöktun má finna hér.

 

Símælingar á framleiðslusvæði

 

Fylgst er með flúorlosun, ryklosun og brennisteinslosun frá kerskálum og þurrhreinsi­virkjunum með símælingum. Mælingar á losun flúors um rjáfur kerskála byggjast annars vegar á mælingum á styrk flúorgass í rjáfrinu með leysigeisla og hins vegar á mælingum á loftmagni út um rjáfur með loftflæðimælingum.

 

Mælistaðir – eftirlit með staðbundinni losun

 

Grænt Bókhald

 

Markmið okkar er að nýta allt hráefni eins vel og kostur er og gera ítarlega grein fyrir því hvað verður um öll óæskileg efni. Norðurál heldur Grænt bókhald, sem er nákvæm skrá yfir allt efni sem kemur til álversins og allt sem fer frá því. Bókhaldið sýnir með skýrum hætti að við höfum náð verulegum árangri á fjölmörgum sviðum. Allt frá bættri nýtingu hráefnis að endurvinnslu lífræns úrgangs í mötuneytinu.

 

Starfsfólk, hráefni og auðlindanotkun

Við höfum sett okkur markmið um að auka hlutfall kvenna innan fyrirtækisins. Árið 2017 voru 13,3% starfsfólks Norðuráls konur, en árið 2021 voru þær 23,5%. Áfram verður haldið á þessari braut.

 

Losun efna og meðhöndlun úrgangs

Úrgangur

Losun í loft

Notkun eiturefna og hættulegra efna (Xn, T, Tx, C, Xi, E, Fx, F, O, N)

Framleiðsla og hráefnanotkun

Kolefnislosun

 

Fyrir nokkrum árum tókum við hjá Norðuráli ákvörðun um að þróa vörulínu, Natur-Al™, sem svarar kalli neytenda um aukið gagnsæi og upplýsingagjöf. Við bjóðum nú viðskipta­vinum ál, til að framleiða vörur sem auðvelda fólki að draga úr áhrifum á umhverfi sitt.

Það er ekki nóg að segja fólki að varan sé græn. Það verður að vera hægt að styðja þá full­yrðingu með gögnum og rekja framleiðsluferlið allt. Við fórum því í gegnum allt fram­leiðslu­ferlið, frá því að báxít er grafið upp og þar til fullunnið ál er komið til viðskiptavinar, eða vistferilsgreiningu (e. Life Cycle Assessment) á því áli sem fyrirtækið framleiðir.

 

Greiningin miðast við vistferli álsins frá vöggu að hliði (e. cradle-to-gate) þar sem tekið er tillit til framleiðslu og flutninga hráefna, staðbundinnar losunar mengandi efna og myndunar úrgangs auk flutnings á lokaafurð framleiðslunnar á markað í Evrópu. Líkan fyrir alla virðiskeðju álframleiðslunnar var útbúið með upplýsingum frá Alþjóðasamtökum álframleiðenda (IAI) ásamt gögnum úr framleiðsluferli Norðuráls. Greiningin var gerð í samræmi við ISO staðla 14040:2006 og 14044:2006 og við framkvæmd hennar var notast við hugbúnaðinn GaBi frá Thinkstep og alþjóðlega gagnabanka. Við greininguna voru notuð fimm ára meðaltalsgögn úr framleiðsluferli Norðuráls þar sem því var við komið, til að fá lýsandi mynd af ferlinu.

 

Afraksturinn er vörumerkið Natur-Al™, sem er skrásett vörumerki beggja vegna Atlants­hafsins. Ál undir merkjum Natur-Al™ hefur kolefnisspor sem er undir 4 tonnum koltvíoxíð­ígilda á hvert tonn af áli, og er þar allt tekið með í reikninginn – öflun báxíts og vinnsla áloxíðs til álvinnslu og flutningur alla leið til kaupanda. Heildarlosun koltvíoxíðígilda við framleiðslu Natur-Al™ er innan við fjórðungur af meðallosun álframleiðslu í heiminum, sem er um 18 tonn á hvert tonn af áli. Í Kína fer koldíoxíðmagnið í 20 tonn þegar álverin eru knúin með orku úr kolum.

Vistferilsgreiningin er unnin af óháðum aðila og við getum boðið viðskiptavinum okkar öll gögn sem þarf til að greina kolefnisspor á neytendavörum sem framleiddar eru úr Natur-Al™ áli.

 

Við hjá Norðuráli erum sannfærð um að framtíðin liggi í vöruþróun sem þessari. Þetta verkefni sýnir líka fram á mikilvægi áframhaldandi þróunar og nýsköpunar í geirum eins og okkar.

 

Þróun milli ára

Kolefnislosun vegna samgangna

 

Norðurál starfar á alþjóð­legum markaði og á sam­starfsaðila og viðskiptavini um allan heim. Ferðalög starfsfólks erlendis vegna starfa sinni fyrir Norðurál eru óhjákvæmileg, en fyrir­tækið telur mikilvægt að halda fjölda flugferða í lágmarki, til að mynda með bættri aðstöðu til fjarfunda. Mikill samdráttur var í flug­ferðum árið 2021 vegna heimsfaraldursins.

Hjá Norðuráli ferðast stór hluti starfsmanna samferða til og frá vinnu í bílum Norðuráls. Með samakstri er dregið verulega úr heildarfjölda bílferða starfsmanna til og frá vinnu, og þannig er dregið úr óbeinni losun frá starfsemi Norðuráls. Losun frá samakstri hefur dregist saman ár frá ári og skýrist það af innleiðingu níu rafmagnsbíla auk þess sem lögð hefur verið áhersla á sparneytni bíla og bætta sætanýtingu. Þessar aðgerðir hafa skilað samdrætti í losun koldíoxíðs sem nemur 40 tonnum, eða tæplega 16.000 lítrum af olíu. Það er 19% samdráttur frá árinu 2015.

Losun frá samakstri starfsfólks og markmið um 40% samdrátt.

 

Efnisnotkun

 

Við veljum hráefni okkar eins vel og kostur er til að framleiða meira af verðmætari og umhverfis­vænni vöru. Losun CO₂ vegna álvinnslu er minni á Íslandi en í nokkru öðru fram­leiðslulandi. Þessi árangur næst með góðu starfsfólki og stöðugleika í rekstri, ásamt notkun umhverfisvænna orkugjafa. Skýr umhverfisvitund gegnir lykilhlutverki á öllum stigum framleiðslunnar, allt frá aðföngum í fjarlægum löndum að hámarksnýtingu og endurvinnslu hráefna.

Betri nýting

 

Þurrhreinsivirki á framleiðslusvæði Norðuráls sjá til þess að flúor endurnýtist í framleiðslu­ferlinu. Yfir 99% þess flúors sem notaður er til álframleiðslunnar er fangaður í virkinu og hann er svo notaður aftur og aftur.

 

Eftir að rafskaut hafa gegnt sínu hlutverki í kerskála eru skautleifar sendar til framleiðenda skautanna í Vlissingen í Hollandi. Þar eru þær notaðar í framleiðslu á nýjum skautum sem aftur eru notaðar við álframleiðslu hjá Norðuráli.

 

Það gjall sem fellur til á framleiðslusvæði Norðuráls fer til vinnslu hjá nágrönnum okkar hjá Alur á Grundartanga. Alur vinnur ál úr gjallinu sem aftur er notað í framleiðslu á áli hjá Norðuráli.

 

Endurvinnsla og förgun

 

Norðurál leggur ríka áherslu á að draga úr myndun úrgangs og að auka endurvinnsluhlutfall. Úrgangur frá Norðuráli skiptist gróflega í endurunninn úrgang, úrgang til urðunar í flæði­gryfjum, fastan úrgang til urðunar, efni frá fráveitu og spilliefni.

 

Frá árinu 2015 hefur losun vegna förgunar almenns úrgangs dregist saman um 14 tonn koldíoxíðígilda, eða um 8%.

 

Förgun hefur dregist saman um 8% frá árinu 2015.

Norðurál stuðlar að aukinni umhverfisvitund og þátttöku starfsfólks í umbótastarfi. Allt starfs­fólk Norðuráls fær bónusgreiðslur sem eru m.a. tengdar frammistöðu fyrirtækisins á sviði umhverfismála.

 

Árið 2021 voru 80% af úrgangi sem féllu til vegna starfsemi Norðuráls endurunnin. Stærstur hluti þess er framleiðsluúrgangur á borð við skautleifar og kolaryk.

 

Aukin áhersla hefur jafnframt verið lögð á að minnka almennan úrgang frá öðru en fram­leiðslu og bæta endurvinnslu á honum. Árið 2016 var til að mynda hafin flokkun á lífrænum úrgangi frá mötuneyti. Skipti á einnota drykkjarmálum úr plasti yfir í pappa, samhliða áherslu á notkun fjölnota drykkjaríláta er annað dæmi um vel heppnað umbótaverkefni. Í október árið 2019 var stórt skref stigið með útskiptum plastpoka fyrir fjölnota bakka til dreifingar á kosti úr mötuneyti til kaffistofa innan verksmiðjunnar. Hugmyndin að þessum umbótum varð til hjá starfsfólki við verkefnavinnu í Stóriðjuskóla Norðuráls. Þeim reiknaðist til að með innleiðingu fjölnota bakka væri komist hjá notkun 12.500 plastpoka á ári.

Móttökustöðvar

Á kaffistofum og starfssvæðum Norðuráls eru flokkunarstöðvar sem taka á móti plasti, pappa, almennu rusli og spilli­efnum þar sem það á við. Starfsfólk hvers svæðis ber ábyrgð á að losa þessar tunnur á móttöku­stöðvum sem sýndar eru á yfirlitsmynd. Á móttökustöðvum er móttaka fyrir þá flokka rusls sem fellur til á hverju svæði. Starfsmaður sorphirðu sér um að safna saman sorpi frá móttökustöðvum og koma á sorp­söfnunar­svæði fyrirtækisins. Á sorpsöfnunar­svæðinu er sorpið svo flokkað enn betur þegar það á við og rúmmál þess minnkað til að draga úr akstri við flutning á því.

 

Norðurál stuðlar að aukinni umhverfisvitund og þátttöku starfsfólks í umbótastarfi. Allt starfsfólk Norðuráls fær bónusgreiðslur sem eru m.a. tengdar frammistöðu fyrirtækisins á sviði umhverfismála.

 

Hvergi á að vera aðeins tunna fyrir almennan úrgang, hvorki á skrifstofum eða á framleiðslusvæðinu, þar sem þeim hefur öllum verið skipt út fyrir flokkunarstöðvar.

 

Orkunotkun

 

Ísland er eitt örfárra landa í heiminum sem framleiða rafmagn nær eingöngu úr endur­nýjanlegum og umhverfisvænum orkugjöfum. Rafmagnið nýtum við að langstærstum hluta til að vinna hreint ál úr áloxíði og nálgast hlutur Íslands 2% af heimsframleiðslunni. Til fram­leiðslunnar árið 2021 notaði Norðurál 4.700 GWst af hreinni endurnýjanlegri raforku, sem er um fjórðungur allrar raforku sem framleidd er á Íslandi. Rafmagnsnotkun á hvert framleitt tonn af áli var 14,8 Mwh/tAl.

 

Aðgerðir til að draga úr orkunotkun

 

Norðurál notar 100% endurnýjanlega raforku við alla framleiðslu. Hingað til hefur álið okkar verið endurbrætt í Evrópu til áframvinnslu, þar sem notuð er raforka með stærra kolefnisspori. Í nýrri framleiðslulínu Norðuráls er stigið skref í átt að fullunnari vöru þar sem framleiddir verða álsívalningar. Engin aukalosun verður við framleiðslu þeirra og orkuþörf verður mun minni en ef þeir væru steyptir erlendis. Aukin raforkuotkun verður 10 MW en áætlaður orkusparnaður um 40%.

 

Í aðgerðaáætlun Norðuráls í loftslagsmálum er olíunotkun véla og tækja stærsti hlutinn af heildinni og stærstu tækifærin snúa að orkuskiptum véla og tækja. Á síðastliðnum árum hafa fimmtán vinnuvélar, m.a. rafmagnsdráttarvélar og rafmagnslyftarar verið teknar í notkun. Árangur þeirra aðgerða er þegar sýnilegur og eru frekari útskipti áætluð. Milli áranna 2015 og 2021 dróst olíunotkun á vélar og tæki saman um alls 103.776 lítra eða sem nemur samdrætti í losun upp á 279 tonn koldíoxíðs.

 

Raunlosun frá vélum og tækjum með markmið um 40% minnkun.

Vatn og frárennsli

 

Vatn sem veitt er til Norðuráls kemur frá vatnsbóli Tungu og Hlíðarfót í Svínadal.

 

Ferskvatnsnotkun á árinu 2021 nam um 177.116 m3. Þar af var neysluvatn um 70.847 m3 og iðnaðarvatn 106.269 m3. Kælikerfi afriðla notar árlega um 7.884.000 m3 af sjó.

 

Ársfjórðungslega eru mælingar gerðar á frárennsli Norðuráls og kælivatnsmælingar fara fram tvisvar á ári til að fylgjast með vatni á svæðinu. Verkís framkvæmir frárennslismælingar ársfjórðungslega á flúor, áli, svifögnum og olíu. Frárennslismælingar eru framkvæmdar af Verkís þar sem flúor, svifagnir, olía/fita og ál er mælt. Efnagreiningar á kælivatni eru framkvæmdar af Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði.

 

Líffræðileg fjölbreytni

 

Umhverfisvöktun iðnaðarsvæðisins á Grundartanga felur í sér rannsóknir og eftirlit með um 100 mæliþáttum í og við Hvalfjörð. Tilgangurinn er að ganga úr skugga um að starfsemi fyrirtækja á Grundartanga hafi ekki neikvæð áhrif á umhverfið. Umhverfisvöktun er framkvæmd af óháðum aðilum sem annast mismunandi eftirlitsþætti. Rannsóknir vegna umhverfisvöktunar árið 2021 voru framkvæmdar af Efnagreiningum Hafrannsóknastofnunar, Dýralækninum í Mosfellsbæ, Náttúrufræðistofnun Íslands, Matís ohf., Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurnesjum, Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við HÍ og öðrum óháðum aðilum. Greindir voru rúmlega 117 mæliþættir í sýnunum.

 

Eftirfarandi þættir voru vaktaðir á árinu: loftgæði (andrúmsloft og úrkoma), ferskvatn, sjór við flæðigryfjur, lífríki sjávar (kræklingur og set), móareitir, gróður (gras, lauf og barr) og grasbítar (sauðfé og hross).

 

Á árinu 2021 voru tekin um 813 sýni tekin á um 143 sýnatökustöðum.

 

Skýrslu fyrir árið 2021 má finna hér.

Tilkynningar og frávik

 

Álver Norðuráls á Grundartanga hefur starfsleyfi fyrir framleiðslu á allt að 350 þúsund tonnum af áli á ári. Starfsleyfið er gefið út af Umhverfisstofnun og gildir til 16. desember 2031.

 

Árið 2021 fóru fram tvær eftirlitsheimsóknir á vegum Umhverfisstofnunar. Eftirlit er samkvæmt starfsleyfi og mæliáætlun.

 

Hægt er að nálgast skýrslur úr eftirlitsheimsóknum á vef Umhverfisstofnunar.

 

Umhverfisvöktun í kringum iðnaðarsvæðið á Grundartanga er samkvæmt umhverfisvöktunaráætlun sem gildir til ársins 2028, með samþykki Umhverfisstofnunar.

 

Þá heldur Norðurál grænt bókhald í samræmi við reglugerð nr. 851/2002 og skilar því endurskoðuðu til Umhverfisstofnunar fyrir 1. maí ár hvert. Einnig er fært útstreymisbókhald í samræmi við reglugerð nr. 990/2008.

 

Þrjár tilkynningar voru sendar á Umhverfisstofnun árið 2021:

  1. Tilkynning vegna niðurkeyrslu á virki vegna bilunar á samskiptaeiningu sem varði í 3 klst og 50 mín.
  2. Tilkynning vegna skertra afkasta í virki vegna bilunar í blásara.
  3. Tilkynning vegna hárra mælinga á loftkenndum flúor við mælistöðina á Kríuvörðu.

 

Meðalstyrkur flúors á Kríuvörðu mældist utan viðmiðunarmarka starfsleyfis árið 2021.Aðrar mælingar á flúor hjá Norðuráli voru innan starfsleyfismarka auk þess sem aðrar loftgæðamælingar í andrúmslofti uppfylla öll viðmiðunarmörk í reglugerðum.

 

Umhverfisáhrif birgja

 

Í stað þess að flytja raf­skaut frá Kína rekum við okkar eigin rafskauta­verksmiðju í Vlissingen í Hollandi. Það dregur úr neikvæðum umhverfis­áhrifum.

 

Norðurál fól verkfræðistofunni Eflu að framkvæma vistferilsgreiningu (e. Life Cycle Assessment) á því áli sem fyrirtækið framleiðir. Greiningin miðast við vistferli álsins frá vöggu að hliði (e. cradle-to-gate) þar sem tekið er tillit til framleiðslu og flutnings hráefna, staðbundinnar losunar mengandi efna og myndunar úrgangs. Umhverfisáhrif allra hlekkja í framleiðslukeðjunni voru metin og skrásett. Þar sjáum við svart á hvítu hvar og hvernig má haga innkaupum og hanna framleiðsluferlið til að lágmarka umhverfisáhrif.

 

Við beinum viðskiptum okkar til ábyrgra súrálsframleiðenda. Í því ferli höfum við útilokað ákveðna framleiðendur vegna gæða og neikvæðra umhverfisáhrifa. Erlendir birgjar undirgangast reglur og staðla móðurfélags Norðuráls, Century Aluminum.

 

Norðurál á Grundartanga hlaut alþjóðlega ASI vottun um umhverfisvæna og ábyrga fram­leiðslu, fyrst þeirra álfyrirtækja sem starfa á Íslandi. Vottunin staðfestir að starfsemi og viðskiptahættir fyrirtækisins eru samfélagslega ábyrg og framúrskarandi á sviði umhverfisvænnar framleiðslu.

 

ASI vottunin tekur til 59 þátta í starfsemi fyrirtækisins, allt frá öflun hráefnis um allan heim að endanlegri afurð.