Samfélag
Stærsti vinnustaður vesturlands
Við erum stolt af efnahagslegu mikilvægi Norðuráls og okkar þætti í nýtingu einnar mikilvægustu auðlindar Íslands, sem er hrein og umhverfisvæn orka úr fallvötnum og jarðvarma. En við erum ekki síður meðvituð um samfélagslegt mikilvægi fyrirtækisins sem langstærsta vinnustaðarins á stóru landsvæði. Við viljum skapa góðan og öruggan vinnustað fyrir allt okkar fólk og taka virkan þátt í margvíslegum samfélagslega mikilvægum verkefnum.
Starfsfólk
Norðurál er stærsti vinnustaður Vesturlands og leggur áherslu á að vera eftirsóknarverður vinnustaður þar sem boðið er upp á fjölbreytt og krefjandi störf fyrir öll kyn. Á árinu 2022 var fastráðið starfsfólk Norðuráls um 600 talsins, 21% konur og 79% karlar. Meðalaldur er 40,2 ár, 40,6 hjá körlum og 38,6 ár hjá konum. Meðalstarfsaldur er 8,6 ár, 9,2 ár hjá körlum og 6,3 hjá konum. Flest starfsfólk býr norðan Hvalfjarðar eða um 67% og þar af búa um 57% á Akranesi. Um 30% starfsfólks býr á höfuðborgarsvæðinu.
*Tölurnar endurspegla punktastöðu fastráðins starfsfólks í lok árs 2022. Meðalfjöldi greiddra stöðugilda á árinu var 604.
Starfsmannavelta árið 2022 var 13,73% og kynjaskipting þeirra sem hættu var jöfn kynja- skiptingu starfsfólks í heild. Árið 2022 tókum við á móti 57 nýjum starfsmönnum í föst stöðu- gildi. Fastráðnir voru einnig 64 sem áður höfðu verið í afleysingastörfum. Fyrir sumaraf- leysingar var tekið á móti 185 ungmennum sem leystu af fastráðið starfsfólk yfir sumartímann. Nýráðningar sumarstarfsfólks voru 101 en 85 höfðu starfað hjá fyrirtækinu áður og voru að koma til starfa annað og jafnvel þriðja sumarið. Markmið fyrirtækisins er að helmingur sumarstarfsfólks sé konur. Það náðist ekki, en 42% sumarstarfsfólks árið 2022 voru konur.
Jafnréttismarkmið eru höfð að leiðarljósi við allar ráðningar, þar sem við hverja ráðningu er litið til þess að ráða til starfsins það kyn sem hallar á. Þannig eru tækifæri til að ráða fleiri konur í störf framleiðslustarfsfólks, iðnaðarmanna og í hóp millistjórnenda, verk- og tæknifræðinga.
Norðurál hlaut viðurkenningu Jafnvægisvogar Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) á árinu 2022, líkt og árið á undan. Viðurkenninguna fá þau fyrirtæki sem gripið hafa til aðgerða til að jafna hlut kvenna í yfirstjórn og hafa náð að jafna hlutfall kynja í efsta lagi stjórnunar. Markmiðið er að árið 2027 verði hlutfall á milli kynja a.m.k. 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi. Af sjö fulltrúum í framkvæmdastjórn Norðuráls eru þrjár konur.
Norðurál er með vottað jafnlaunakerfi í samræmi við jafnlaunastaðalinn ÍST 85:2012 og hefur einnig hlotið gullmerki jafnlaunaúttektar PWC þrjú ár í röð eða frá upphafi jafnlaunaúttektar. Árið 2022 framkvæmdi BSI viðhaldsúttekt á jafnlaunakerfinu og í þeirri úttekt var sannreynt að jafnlaunakerfið er hannað til að ná markmiðum og stefnu fyrirtækisins í jafnlaunamálum. Óútskýrður launamunur hjá Norðuráli er 1,8%.
Mikill meirihluti, eða 85% af starfsfólki Norðuráls, er aðili að stéttarfélögunum VLFA, FIT, RAFIS, StéttVest og VR. Kjarasamningur var undirritaður milli Norðuráls og félaganna í október árið 2020 og er hann í gildi til ársins 2025.
Aðbúnaður og heilsa í fyrirrúmi
Norðurál leggur metnað sinn í góðan aðbúnað og öryggi á vinnustaðnum. Gildi fyrirtækisins eru hagsýni, liðsheild og heilindi og endurspegla vel áherslu fyrirtækisins í mannauðs- og umhverfis-, heilsu- og öryggismálum.
Boðið er upp á samgöngur milli Akraness og álvers en þar búa tæplega 60% starfsfólks. Atvinnusvæði fyrirtækisins er þó töluvert stærra, en um 20% starfsfólks sækir vinnu daglega frá höfuðborgarsvæðinu. Fyrir starfsfólk sem býr sunnan gangna og í Borgarnesi býður fyrirtækið upp á samkeyrslubíla, en fyrirtækið á eða leigir um 60 fólksbíla sem notaðir eru til samkeyrslu til og frá vinnu á degi hverjum. Rafknúnir samkeyrslubílar eru 52% bílaflotans og með þeim hætti styður fyrirtækið við markmið og áform um orkusparnað. Þá eru 40 hleðslustæði við Norðurál á Grundartanga þar sem starfsfólk hleður bíla sína endurgjaldslaust.
Norðurál er í samstarfi við Vinnuvernd sem sér um heilsufarsmælingar og árlegar vinnutengdar heilsufarsskoðanir. Markmiðið með þessum skoðunum er að hafa eftirlit með heilsu starfsfólks m.t.t. mögulegra heilsuspillandi áhrifa frá vinnuumhverfi, bæta vinnuumhverfi þar sem það á við og vekja starfsfólk til umhugsunar um mikilvægi góðrar heilsu og stuðla að bættum lífsstíl. Árlega gefur Vinnuvernd úr skýrslu um heilsufarsskoðanir starfsfólks. Á árinu 2022 fóru 539 í heilsufarsskoðun. Helstu niðurstöður heilsufarsskýrslu Vinnuverndar voru kynntar fyrir starfsfólki á Teams samskiptaforritinu. Öll meðferð gagna hjá Vinnuvernd er samkvæmt lögum um persónuvernd og fær Norðurál einungis upplýsingar sem tengjast starfshæfni starfsfólks hverju sinni.
Norðurál er vímuefnalaus vinnustaður og undirgengst allt nýtt starfsfólk lyfjapróf. Einnig eru framkvæmd tilviljanakennd lyfjapróf á vinnusvæðinu með það að markmiði að tryggja að enginn sé undir áhrifum ólöglegra efna á vinnustaðnum.
Stærsti hluti starfsfólks Norðuráls starfar samkvæmt kjarasamningi við framleiðslu- og viðhaldsstörf eða um 490 manns. Stjórnendur, millistjórnendur, sérfræðingar og hluti skrifstofufólks er með ráðningarsamninga án tengingar við kjarasamning. Uppsagnarfrestur fastráðins starfsfólks er ein vika á reynslutíma, einn til þrír mánuðir á fyrsta starfsári en eftir það að lágmarki þrír mánuðir. Samkvæmt kjarasamningi hættir starfsfólk hjá fyrirtækinu í þeim mánuði sem það verður 67 ára. Níu hættu vegna aldurs árið 2022 og 21 verður 67 ára á næstu þremur árum. Fyrirtækið býður fólki sem er að ljúka störfum vegna aldurs á námskeið þar sem farið er yfir fjölbreytt málefni sem mikilvægt er að huga að við þessi tímamót.
60 fóru í fæðingar- og foreldraorlof árið 2022, 23% konur og 77% karlar. Af þeim hafa 2% látið af störfum eftir að orlofi lauk, eingöngu konur. Árið 2021 fór 61 í fæðingar- og foreldraorlof, 20% konur og 80% karlar. Af þeim eru 88% enn starfandi hjá fyrirtækinu.
Engin vinnutengd sjúkdómstilfelli voru tilkynnt á árinu. Samkvæmt skýrslu Vinnuverndar þykir meirihluta starfsfólks Norðuráls ekki erfitt að stunda vinnu vegna vinnutengdra óþæginda (78%). Um 22% hafa einhvern tíma átt í erfiðleikum með að stunda vinnu (sjaldan/ stundum/oft) vegna vinnutengdra óþæginda. Langflest eru ánægð með félagslegt vinnuumhverfi, en 87% finnst starfsandi vera góður, samanborið við 82% árið áður.
STNA, Starfsmannafélag Norðuráls, er öflugt starfsmannafélag sem stendur fyrir ýmsum viðburðum á hverju ári, skipulögðum göngum og ýmsum viðburðum þar sem starfsfólki og fjölskyldum þeirra er boðið. Félagið býður starfsfólki einnig upp á ýmiskonar afþreyingu á niðurgreiddu verði, eins og miða í bíó og leikhús, hagstæð kjör í ýmsum verslunum og ýmsa afþreyingu á Vesturlandi og á höfuðborgarsvæðinu.
Vinnustaðargreiningar og kannanir
Vinnustaðargreining hefur alla jafna verið framkvæmd á tveggja til þriggja ára fresti. Í júní 2022 var framkvæmd púlskönnun til að fylgja eftir starfsánægjukönnun sem gerð var haustið 2021. Niðurstöður púlskönnunar styðja í megindráttum við könnunina frá árinu 2021 og endurspegluðu vinnu sem unnin var í kjölfar þeirrar könnunar. Helgun starfsfólks hækkaði örlítið á milli kannana. Meðaltal helgunar (employee engagement) var 3,58 árið 2021 en 3,62 í púlskönnun í júní 2022.
Einelti og áreitni
Norðurál er með verkferla um viðbrögð við einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og öðru ofbeldi. Þessir ferlar eru aðgengilegir öllu starfsfólki, þeir eru kynntir þegar fólk hefur störf hjá fyrirtækinu og reglulega eftir það. Jafnframt er spurt um þessa þætti í vinnustaða- greiningum. Undir engum kringumstæðum er einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni eða annað ofbeldi liðið á vinnustaðnum. Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og annað ofbeldi er brot á starfskyldum og óásættanleg hegðun á vinnustað. Allar kvartanir um einelti, kynferðislega og kynbundna áreitni og annað ofbeldi sem berast eru skoðaðar ofan í kjölinn. Þrettán mál voru tilkynnt árið 2022. Meirihluti málanna sneri að erfiðum samskiptum og fékk starfsfólk og stjórnendur aðstoð við að leysa úr þeim. Tveimur málanna lauk með tilfærslu í starfi og einu með uppsögn.
Öryggið ofar öllu
Hjá Norðuráli er mikil áhersla lögð á öryggi og vinnuvernd með það að leiðarljósi að koma í veg fyrir slys og óhöpp. Til að tryggja öryggi starfsfólks, verktaka og gesta á svæðinu er gerð krafa um að allir sem starfa á og heimsækja athafnasvæði Norðuráls kynni sér öryggireglur til hlítar. Reglurnar ná til allra sem fara inn á athafnasvæði Norðuráls. Við störfum undir slagorðinu „Öll saman!“ sem vísar til þess að öryggi er samstarfsverkefni okkar allra sem störfum hjá Norðuráli. Við gætum hvers annars og hjálpumst að við að leysa hvers kyns verkefni með skynsömum og öruggum hætti.
Skipulag og stjórnun heilbrigðis- og öryggismála
Framkvæmdastjóri Norðuráls leiðir öryggis-, heilbrigðis- og umhverfisnefnd (ÖHU). Í nefndinni eiga sæti framkvæmdastjórn Norðuráls og öryggistrúnaðarmenn. Nefndin er ráðgefandi í stefnumótun og markmiðasetningu og leitar leiða til úrbóta og forvarna í öryggis-, heilbrigðis- og umhverfismálum. Nefndin skal samkvæmt lögum (46/1980) taka til umfjöllunar mál er varða aðbúnað, hollustuhætti og öryggi innan fyrirtækisins. Nefndin kýs formann og ritara og skulu þau til skiptis vera úr röðum öryggistrúnaðarmanna og annarra nefndarmanna.
Lögbundið hlutverk ÖHU felst í að
- taka þátt í gerð áhættumats og fylgja því eftir með atvinnurekanda
- kynna starfsfólki áhættur á vinnustaðnum varðandi öryggi og heilsu og tryggja að það fái nauðsynlega fræðslu og þjálfun
- fylgjast með að einelti viðgangist ekki á vinnustaðnum
- vélar og tæknibúnaður, hættuleg efni og starfsaðferðir stofni starfsfólki ekki í hættu
- gæta þess að persónuhlífar séu til staðar, í góðu ástandi og notaðar í samræmi við reglur
- fylgjast með að skráningu slysa, óhappa og atvinnusjúkdóma sé sinnt
ÖHU skipar fagráð um málaflokka; öryggis- og áhættustýringu, þátttöku og samskipti starfsfólks, vettvangsskoðanir, aðbúnað og velferð starfsfólks og um umhverfismál. Fagráðin funda reglulega og eiga í samskiptum við starfsfólk, bæði til að fræðast og fræða. Þau ráðfæra sig við ÖHU reglulega.
Hjá Öryggisdeild Norðuráls vinnur hópur fulltrúa og sérfræðinga sem eru m.a. sérhæfð í áhættumati, áhættustjórnun og atvikarannsóknum. Öryggisstjórnunarkerfi fyrirtækisins byggir á hugmyndafræði stöðugra umbóta og fylgir ISO stöðlum.
Áhættustýring og atvikarannsóknir eru hluti af lykilferlum stjórnkerfa Norðuráls sem tekin eru út í innri úttektum. Vikulega eru haldnir fundir með stjórnendum þar sem úrlausnir atvika eru rýndar. Áhættugreiningar eru endurskoðaðar reglulega og leiðbeiningar fyrir reglubundin störf byggja á áhættugreiningum.
Öll störf Norðuráls á að vinna samkvæmt fyrirfram ákveðnu ferli sem búið er að áhættugreina. Allar vinnuleiðbeiningar má nálgast í gæðahandbók, á innra neti Norðuráls eða hjá næsta yfirmanni. Öll verk eru áhættuskimuð áður en þau hefjast.
Öryggisreglur Norðuráls ná til allra sem starfa á vinnusvæði fyrirtækisins, hvort sem um er að ræða starfsfólk Norðuráls, verktaka eða gesti. Verktakar fá kynningu og þjálfun í öryggismálum áður en þeir hefja störf.
Öryggisreglur Norðuráls má nálgast hér.
Atvikarannsóknir eru notaðar til að greina og komast að rótum atvika og setja upp fyrirbyggjandi aðgerðir.
Öll óhöpp, slys og tjón eru skráð í ábendingagrunn Norðuráls. Við trúum því að öll slys geri boð á undan sér og því viljum við einnig fá ábendingar um næstum-því-slys, öryggisábendingar og umhverfisábendingar. Unnið er úr öllum ábendingum og útbætur gerðar þegar við á.
*Tíðni vinnuslysa er gefin upp sem fjöldi slysa á hverjar 200.000 vinnustundir, sem samsvarar vinnu 100 starfsmanna yfir árið
Menntun og þjálfun
Starfsfólk sem hefur störf hjá Norðuráli fær nýliðaþjálfun þar sem lögð er áhersla á ör- yggis- og umhverfismál. Farið er yfir stefnu fyrirtækisins og framleiðsluferli. Þá tekur við viðamikil þjálfun á hverri starfsstöð. Á árinu 2022 fékk hver starfsmaður að meðaltali um 21 klukkustund í þjálfun. Á vormánuðum voru skipulagðir starfsdagar fyrir allt starfsfólk með vinnustofum tengdum vinnustaðagreiningu, öryggis- og umhverfismálum. Stjórn- endaþjálfun hófst í desember 2021 og stóð fram á vor árið 2022. Sextán vaktstjórar og formenn verkstæða fengu 140 stunda stjórnendaþjálfun á tímabilinu.
Nýtt starfsfólk situr námskeið og fær sértæka þjálfun í samræmi við starfið. Sem dæmi má nefna „Læsa, merkja, prófa“ námskeið, fallvarnarnámskeið og námskeið um vinnu í lokuðu rými. Þörf á fræðslu fastráðins starfsfólks byggist á hæfniviðmiðum. Verktakar fá almenna kynningu árlega ásamt námskeiðum eftir þörfum.
Fræðsluáætlun tekur á upprifjun og endurþjálfun í ýmsum öryggisatriðum, t.d. þjálfun stjórnenda í skyndihjálp, atvikarannsóknum og endurþjálfun í fallvörnum. Starfsfólk framleiðsludeilda rýnir á hverju ári vinnuleiðbeiningar reglubundinna starfa. Auk reglubundinnar þjálfunar er stefna Norðuráls í gæða-, umhverfis-, öryggis-, mannréttinda-, og jafnréttismálum, vel sýnileg á vinnusvæði Norðuráls og samskiptamiðlum.
Heildar fræðslustundir voru 12.718
- 296,5 stundir í þjálfun í atvikarannsóknum
- 994 stundir í þjálfun í Öruggu atferli
- 793 stundir í stjórnendaþjálfun
- 4.496 stundir í starfsdaga
- Ríflega 6.000 stundir fóru í annars konar þjálfun
Sumarið 2022 hófst innleiðing á nýju mannauðs- og launakerfi, sem býður upp á mikla möguleika hvað viðkemur fræðslu og þjálfun. Þá veitir kerfið starfsfólki aðgang að grunnupplýsingum, eins og stöðu á þjálfun og hæfni.
Öruggt atferli
Áherslur í þjálfun árið 2022 í öryggismálum snéru fyrst og fremst að öruggu atferli og atvikarannsóknum. Einnig var efni frá Öryggis-, umhverfis- og umbótasviði (ÖUU) hluti af starfsdögum starfsfólks, meðal annars yfirferð á viðbragðsáætlun Norðuráls og helstu umhverfisáhrif framleiðslunnar ásamt sorpflokkun.
Árið 2011 var innleitt kerfi hjá Norðuráli byggt á Behavior Based Safety (BBS) og við köllum Öruggt atferli.
Tilgangurinn með Öruggu atferli er að efla öryggisvitund starfsfólks og þróa góða og öfluga öryggismenningu. Starfsfólk rýnir verklag og umhverfi sitt með öryggi að leiðarljósi og festir í sessi öruggari vinnubrögð í daglegum störfum.
Örugg venja telst komin á þegar starfsfólk framkvæmir fyrirfram ákveðið verkefni á öruggan máta með 100% árangri í 21 dag/vakt í röð skv. mælingum. Starfsfólk blæs til fagnaðar þegar öruggri venju er náð.
Eignarhald Öruggs atferlis er í höndum starfsfólks Norðuráls, enda mikilvægt að virkja og hvetja öll til þátttöku í því að auka sitt eigið öryggi og samstarfsfólks. Þjálfun starfsfólks er mikilvægur þáttur í ferlinu og öll sem taka beinan þátt í öruggu atferli fá viðeigandi þjálfun.
Á árinu 2022 var áhersla á endurþjálfun og upprifjun reynds starfsfólks en einnig var lögð áhersla á ítarlega þjálfun nýrra starfsfólks, eða þeirra sem starfað höfuð skemur en þrjú ár hjá fyrirtækinu.
Á haustdögum fengu stjórnendur og sérfræðingar endurþjálfun í atvikarannsóknum. Auk þess voru verklegar æfingar framkvæmdar og raundæmi tekin og greind úr deildum þeirra sem sátu námskeiðin.
Stóriðjuskóli Norðuráls
Í desember 2022 útskrifuðust tíu nemendur úr grunnnámi Stóriðjuskóla Norðuráls sem er þrjár annir. Hlutfall kvenna í hópnum er 23%. Þá hófu fimmtán framhaldsnám í Stóriðju- skólanum í janúar 2022 sem líkt og grunnnámið er þrjár annir. Stóriðjuskóli Norðuráls var settur á laggirnar árið 2012 og hafa 190 útskrifast. Skólinn er samstarfsverkefni Norðuráls, Símenntunar á Vesturlandi og Fjölbrautarskóla Vesturlands. Námið er hluti af framhalds- fræðslukerfi landsins og fá nemendur allt að 45 einingar metnar á framhaldsskólastigi fyrir bæði grunn- og framhaldsnám, en námsskráin er gefin út og vottuð af Fræðslumiðstöð at- vinnulífsins. Í náminu öðlast starfsfólk skilning á framleiðsluferli fyrirtækisins, kynnist starf- semi annarra deilda innan fyrirtækisins, situr námskeið á framhaldsskólastigi og vinnur að umbótaverkefni til að bæta vinnustaðinn og starfsumhverfi.
Samtöl
Starfsmannasamtöl ásamt leiðréttandi og uppbyggjandi endurgjöf eru hluti af reglubundnu mati á frammistöðu og starfsþróun starfsfólks. Eftirfylgni framkvæmdar er í höndum mannauðssviðs sem fylgir því eftir að öll fái að minnsta kosti eitt samtal á ári. Þannig höfðu um 85% fengið eitt eða fleiri formleg samtöl við sinn yfirmann um áramótin 2022.
Réttindi og virðing
Trúnaðarmenn frá þeim stéttarfélögum sem eru aðilar að kjarasamningi Norðuráls eru sex, auk aðaltrúnaðarmanns. Engin mál komu upp á árinu sem tengdust brotum á vinnurétti.
Samfélagsverkefni
Norðurál styrkir ýmis samfélagsverkefni og nam upphæðin til þessara verkefna á þriðja tug milljóna árið 2022. Félagið er stoltur styrktaraðili knattspyrnufélagsins ÍA á Akranesi og knattspyrnufélagsins Vals á höfuðborgarsvæðinu, með áherslu á stuðning við starfið í yngri flokkum.
Einnig er í gildi styrktarsamningur við Fablab og Golfklúbbinn Leyni á Akranesi. Þá má nefna smærri styrki sem runnu meðal annars til Mæðrastyrksnefndar, Björgunarfélags Akraness og fleiri aðila.